16.1.2007 | 11:57
Ábyrgð stjórnmálamanna
Þó margir slíkir hagi sér og tali eins og svo sé ekki, þá er það þannig að stjórnmálamenn bera ábyrgð. Þeirra ábyrgð er slík að hún er mun meiri og sterkari en okkar sem ekki erum með fjöregg þjóðarinnar á milli handanna.
Stjórnmálamenn hafa ekki sama frelsi og aðrir til að tjá sig um hvað sem er hvernig sem er. Þeirra orð hafa meira vægi en okkar hinna sem erum á götunni. Nú mætti koma með þau rök að stjórnmálamenn séu líka einstaklingar og sem slíkir búi þeir við sama frelsi og við hin. Rétt er það að stjórnmálamenn eru líka einstaklingar, en frelsi þeirra fólst í því að velja sér vettvang til starfs. Með vali sínu á vettvangi eru þeir um leið að samþykkja ábyrgð sem gerir þeim ákveðnar hömlur til tals og athafna. Einstaklingar sem velja sér stjórnmál sem starfsvettvang, en vilja ekki skilja þær hömlur sem því fylgja, eiga ekki erindi á þann vettvang.
Á meðan stjórnmálamenn þurfa að átta sig á sinni ábyrgð og þeim höftum sem þeir þurfa að gangast við, þá þurfum við sem kjósendur að átta okkur á þeirri ábyrgð sem við berum sem þegnar þessa lands. Við þurfum að gera okkar til þess að slíkir einstaklingar, sem ekki skilja sína ábyrgð, séu ekki kosnir til þeirra áhrifa sem þeir sækjast í, nema þeir hafi þann þroska til að bera að valda þeirri stöðu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.