Af göngum í Vestmannaeyjum

Sérstaklega þegar litið er til þess að komið er fram yfir jól, þá mun þessi pistill ekki fjalla um göngur eða leitir. Ekki heldur um sauðfé, en aðeins komið inn á kanínur. Minkur mun hins vegar skipa sess í þessu spjalli.

Fyrir margt löngu komu upp hugmyndir um að grafa göng til eyja. Þessi umræða hefur magnast upp hægt og bítandi og nú virðist hún komin á það stig að þetta sé ekki spurning um hvort heldur hvenær. Menn hafa talið gangnagerðina skipta sköpum fyrir byggð í eyjunum og virðast menn ekki sjá neitt sem ætti að standa í vegi fyrir slíkri gangnagerð.

Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort vandi gæti skapast við gangnagerðina. Hingað til hafa eyjurnar verið lausar við minkinn, þó svo að ég hafi reyndar heyrt af því að einu sinni hafi minkur komist út í eyjar valdið þar miklum usla þar til hann var felldur. Vestmannaeyjar virðast vera það langt frá landi að minkurinn er ekki að synda út í þær, en frá Heimaey er stutt í allar hinar eyjarnar. Ég er hræddur um að með tilkomu gangna til eyja, muni minkurinn fara að herja á fuglalífið af slíkum krafti að kanínufárið sem var, verði ekki talið fár mikið lengur. Kanínurnar röskuðu fuglabyggð. En minkurinn kemur til með að drepa allt kvikt og þá mun ekki líða langur tími þar til fuglinn mun hverfa á brott í leit að hentugra svæði. Fuglarnir skipa það stóran sess í lífi eyjanna að landleið milli lands og eyja gæti verið meira böl en blessun.

Vandamál eyjanna liggur ekki í því að ekki sé hægt að aka þangað á sólríkum sunnudegi. Vandamálið liggur í atvinnu. Ef ekki er næg atvinna, þá mun eyjamönnum fækka. Alveg óháð því hvort þeir þurfi að fljúga eða geti ekið á brott. Ég man eftir eyjunum bullandi af mannlífi, en síðan þá hefur ekkert gerst að ráði nema atvinnan hefur horfið úr plássinu. Þá var eins og nú flogið og siglt til eyja. Orsakasamhengið er það að samdráttur hefur orðið í flugi og siglingum eingöngu vegna þess að fólkinu fækkar, en ekki að fólkinu fækki vegna þess að dregið hafi verið úr flugi og siglingum.

Það er nauðsynlegt að skilgreina verkefnin áður en farið er í að leysa þau.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Lárusson

Atvinna og samgöngur haldast í hendur. Með meiri atvinnu eykst íbúafjöldinn. Með auknum íbúafjölda batna samgöngur. Einfaldur sannleikur.

Jón Lárusson, 16.1.2007 kl. 12:02

2 Smámynd: Haukur Nikulásson

Þetta er kannski ekki "politically correct" en læt það flakka. Ef jarðgöng kosta 16-20 milljarða (sem ég held að sé varleg áætlun) þá sé það 4-5 milljónir króna á hvern íbúa.  Af hverju að bjóða Vestmanneyingum þessa upphæð sem flutningsstyrk frá eyjunum? Ég viðurkenni fúslega að ég væri sjálfur skíthræddur við að búa þarna svo nálægt virkum eldfjöllum.

Nei annars, ég dreg ofangreinda tillögu til baka sem bara bull! 

Haukur Nikulásson, 16.1.2007 kl. 18:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband