Rís upp í eigin nafni og eigin verki

Þá er það komið á hreint, VG sveik kjósendur sína, en eins og ég sagði í blogfærslu fyrir nokkru, þá yrði erfitt fyrir þessa tvo flokka að starfa saman án þess að annar sviki kjósendur sína. Við stöndum frammi fyrir því að sá flokkur sem ekkert hafði til málana að leggja, nema leita annað, til lausnar vanda okkar allra, hefur fengið sitt fram. Nú verðum við að rísa upp.

Kæru samlandar,
Við stöndum núna á krossgötum. Við sem þjóð lítum nú til þess að allt okkar umhverfi hefur umturnast og það sem við tókum sem gefið hefur farið á annan veg. Við stöndum frammi fyrir því að þurfa að taka ákvarðanir um það hvað við viljum, hvert við viljum stefna og ekki síst hvernig við viljum framkvæma hlutina. Við stöndum líka frammi fyrir ákvörðuninni um það hvernig þjóðfélag við viljum skapa fyrir okkur og afkomendur okkar. Við þurfum að taka ákvarðanir sem koma til með að hafa áhrif á líf okkar til framtíðar.

Viljum við afsala okkur sjálfstæði okkar og ákvörðunarrétti, ákvörðunarrétti sem gerir okkur mögulegt að velja þá sem við viljum eiga í samskiptum við. Sjálfstæði sem gerir okkur mögulegt að ákvarða sjálf hvert við viljum halda sem þjóð og á hvaða forsendum. Fullyrt hefur verið að þessi hugtök hafi skipt um merkingu í gegnum tíðina, en lítum til þeirra með þeirri tilfinningu sem við nú höfum til þeirra. Tilfinningu sem segir meira en fullyrðingar sem settar eru fram til að villa okkur sýn. Heitir það að vera sjálfstæður, þegar einstaklingur getur ekki valið hverja hann á samskipti við, fær ekki ráðið hvar hann verslar eða hvort hann beiti aðra ofbeldi. Við verðum að gera upp við okkur hvað orðin frjálst og óháð merkir. Þetta er ekki spurningin um að falla í vonleysi og afsala okkur réttinum vegna þess að okkur hefur verið talin trú um það að við séum svo aum að við getum ekki talist hæf til að stjórna okkur sjálf.

Við erum afkomendur fólks sem búið hefur í þessu landi rúmlega 1.100 ár. Á þeim tíma höfum við sem þjóð farið í gegnum margar og mun verri hörmungar en það ástand sem við nú erum að upplifa. Alltaf höfum við bjargað okkur, þó tæpt hafi það verið á stundum. Okkur tókst á innan við hundrað árum að færa okkur úr fátæku sjálfsþurftarsamfélagi til háþróaðs tækniþjóðfélags með lífsgæðum sem forfeður okkar létu sér ekki einu sinni dreyma um. Við náðum þessu með seglunni sem hefur verið viðloðandi þessa þjóð frá upphafi. Seglunni sem enn er til staðar. Seglunni sem leiða mun okkur til bjartari framtíðar.

Við Íslendingar höfum alla tíð þurft að berjast fyrir okkar hlutskipti og okkur hefur tekist það vel. Auðvitað höfum við steitt á skerjum, en við höfum samt alltaf haldið ótrauð áfram í þeirri einlægu trú að okkur væri þetta mögulegt. Trú sem hefur fært okkur það sem við höfum. Og ekki halda að við höfum ekkert. Við sem samfélag höfum í dag náð árangri sem ekki verður tekinn af okkur svo auðveldlega. Við búum líka við möguleika í framtíðinni sem munu hjálpa okkur til að ná hverju því marki sem við setjum okkur. Við verðum bara að setja okkur markið.

Ég hef þá sýn að við Íslendingar munum búa í samfélagi þar sem virðing er borin fyrir náunganum. Samfélagi þar sem við leitumst við að hjálpa þeim sem halloka hafi farið. Samfélags án fordóma, haturs og öfundar. Mín sýn er samfélag þar sem einstaklingurinn fær frelsi til sköpunar og möguleikann til að sækja sér þá hamingju sem hann dreymir um, þess lífs sem veitir honum fyllingu. Ég á mér þá sýn að við sem einstaklingar berum gæfu til þess að lifa saman í sátt, þess fullviss að sameinuð séum við sterkari og hagur náungans sé hagur okkar sjálfra.

Ég hef þá staðföstu trú að við Íslendingar getum náð öllum þeim markmiðum sem við setjum okkur, við verðum bara að trúa því að við getum það. Trúin á okkur sjálf mun leiða okkur áfram, ekkert annað mun gera það. Við getum ekki lagt allt okkar traust og von á utanaðkomandi einstaklinga eða samfélög, í þeirri trú að þau muni bjarga okkur. Vegurinn til farsældar verður ekki lagður af öðrum en okkur sjálfum og við verðum að leggja hann á okkar eigin forsendum. Forsendum sem leiða munu okkur til farsældar

Við höfum tekið skell, við erum óörugg og full haturs og reiði. Eins skiljanlegar og þessar tilfinningar eru, þá verðum við að standa þær af okkur og rísa upp til verka. Við verðum að rísa upp til þeirra verka sem við þurfum að framkvæma til að koma okkur á rétta braut. En við verðum að rísa upp til þeirra með réttu hugarfari. Það skiptir öllu máli hvernig við gerum hlutina. Verk sem unnið er á réttan hátt mun alltaf vara lengur en það sem ranglega er gert.

Ég hef þá staðföstu trú að við Íslendingar getum risið upp úr núverandi ástandi. Risið upp til þess að framkvæma það sem við þurfum að framkvæma til að bæta umhverfi okkar og líf. Við höfum kraftinn og getuna, við þurfum bara að sækja trúnna á okkur sjálf.

Í trú á okkur sjálf, með krafti getu okkar og þeirri seglu sem við öll höfum, munum við sækja fram til bjartari og réttlátari framtíðar. Tími til verkanna er núna, við þurfum bara að hefja verkið.

 


mbl.is Ákvörðun um ESB í höndum þjóðarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband