Einkabílstjóri.

Var að lesa blogg þar sem verið var að fjalla um Jóhönnu ráðherra og þá ákvörðun hennar að fá sér bara "normal" bíl og engan bílstjóra, þegar hún varð ráðherra 1987. Nú erfði hún víst Landkrúser og ákvað að skipta honum út fyrir Hondu smájeppa. Ekki fylgdi sögunni hvort hún hefði kanselerað bílstjóranum.

Ég hef svolítið verið að velta fyrir mér Íslendingum og einkabílstjórum. Ekki það að ég ætli að fá mér einn slíkann, allavega ekki þetta árið, að ég held. Hins vegar hefur maður verið að heyra meira og meira um það að "venjulegt" fólk sé farið að fá sér bílstjóra og sitt sýnist hverjum. Hlegið er að þeim og þeir kallaðir hégómlegir smáborgarar, svona eins og fjallað var um þotumennina fyrst. Nú þykir það hins vegar í lagi að eiga þotu, en við erum ekki alveg búin að gúddera einkabílstjórann.

Það hefur verið samþykkt innan þjóðfélagsins að borgarstjóri Reykjavíkur og ráðherrar hafi einkabílstjóra. Hins vegar þykir það ekki sæma "venjulegu" fólki, jafnvel þó þetta sama "venjulega" fólk hafi margfaldar tekjur hinna, velti meiri fjármunum og eigi meiri eignir. Af hverju eigum við svona erfitt með að samþykkja þetta? Ef ég ætti skítnóg af pening, þá þætti það smáborgaralegt og ég veit ekki hvað, ef ég fengi mér bílstjóra og léti aka með mig um allt. Hins vegar yrði ekki neitt sagt ef ég hringdi alltaf í sömu leigubílastöðina og bæði alltaf um sama taxann. Það þykir sem sagt í lagi að láta leigubílstjóra aka sér um allt, en ekki ráða bara mann í vinnu við að gera það. Þetta er í rauninni sami hluturinn, nema annar er sjálfstæður verktaki sem tekur önnur verk með, á meðan hinn er launþegi sem ekur bara mínum bíl.

Svo er það annað með þetta einkabílstjóra dæmi. Af hverju aka um á Landkrúser eða öðrum slíkum bílum? Var að ræða þetta við kunningja minn og hann sagði eftir öðrum, hvers vegna eiga góðan bíl og aka honum svo ekki sjálfur. Ég er alveg sammála þessu, að því leiti að sumir bílar eru til að keyra og aðrir eru til að láta keyra sér í. Fékk einu sinni tækifæri til að keyra lúxusútgáfuna af BMW. Það var svo sem allt í lagi að aka bifreiðinni, en þegar ég settist aftur í hana og var ekið Reykjanesbrautina heim, þá komst ég að því að suma bíla á maður ekki að keyra. Maður á bara að sitja afturí. Þess vegna skil ég ekki þetta bílaval hjá liðinu með einkabílstjórana. Það gæti kannski orsakast af því að við erum ekki alveg búin að fatta þetta með einkabílstjórana. Svona svipað og þegar maður kemur nýr í umhverfi með nýjum siðum, maður er alltaf hálf hjákátlegur fyrst. En svo venst þetta af manni.

Nú erum við komin með þoturnar. Erum að venja okkur við einkabílstjórna. Hvað þá með þjónustufólkið. Hvenær förum við að heyra sögur af því að þessi og hinn sé með þjón eða þjónustukonu. Held að við munum smjatta mikið á þeim fréttum. Við höfum nefnilega mikið til gleymt sögunum um "stúlkurnar" í húsinu, svona eins og Uglu í Atómstöðinni. Hérna áður fyrr var það nefnilega bara ekkert óalgengt að efnað fólk hefði "stúlku".

Svo er það líka þannig að svona hlutir eru atvinnuskapandi. Segjum að 1.000 efnafólk fái sér einn bílstjóra og þrjú hjú, þá erum við að tala um vinnu fyrir þrjú þúsund manns.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband