Þýska fordæmið

Ég er harður fylgismaður þess að samfélagið sjálft framleiði það fjármagn sem þarf til að skiptast á þeim verðmætum sem framleidd eru innan samfélagsins. Ég tel það hreina fásinnu að eftirláta einkaaðilum þessa framleiðslu gegn greiðslu vaxta.

Það er almennt talið að samfélaginu sé ekki treystandi til að framleiða fjármagnið, því það muni leiða til óðaverðbólgu og því sé best að láta einkaaðila sjá um þetta, því þeir vita alltaf best. Þessu til stuðnings, þá er vísaði til þýsku verðbólgunnar fyrir seinni heimsstyrjöld.

Bent er á ofurframleiðslu þýska ríkisins á peningum sem hafi leitt til gífurlegrar verðbólgu. Þrengingarnar sem fylgdu í kjölfarið hafi svo verið eldsneytið sem fóðraði valdatöku nasista.

Vissulega er rétt að mikil verðbólga varð í Þýskalandi vegna offramleiðslu á fjármagni og var það eitt þeirra atriða sem leiddi til valdatöku nasista. Það er hins vegar einn grundvallar misskilningur í þessu öllu saman.

Árið 1967 kom út bókin "The Magic of Money" eftir Hjalmar Schacht, en hann var seðlabankastjóri þýska seðlabankans þegar peningaframleiðslan fór yfir strikið. Þar kemur fram að það var ekki þýska stjórnin sem stóð að framleiðslunni, heldur einkaaðilar.

Á þessum tíma var þýski seðlabankinn einkabanki og var peningaútgafan hluti af aðgerðum til "varnar" þýska markinu undan ágangi erlendra áhættufjárfesta. Það var því framleitt gífulegt magn fjármagns sem lagði þýskan efnahag í rúst, allt til hagsbóta fyrir erlenda fjárfesta.

Það voru því hinir "ábyrgu" einkaaðilar sem lögðu þýska efnahaginn á hliðina, ekki "óábyrg" hegðun ríkisins.

En hvers vegna minnast á þetta núna? Málið er að við erum að horfa upp á nákvæmlega sömu aðstæður eftir nokkra mánuði.

Samkvæmt fullyrðingum seðlabankastjóra, þá á að afnema gjaldeyrishöft um áramótin, enda búið að taka heljarinnar lán í erlendum gjaldeyri til að geta skipt út krónum fyrir útlendan pening.

Á sama tíma stöndum við frammi fyrir því að erlendir áhættufjárfestar, sem hafa verið með fasta peninga hér á landi, munu selja þær krónur og kaupa gjaldeyrir í staðinn. Það er því gífurleg hætta á að gjaldeyrisforðinn muni dragast verulega saman. Til viðbótar munu gjaldeyriskaupmenn skortselja krónuna og þá mun gengið falla enn frekar.

Þetta tvennt mun að öllum líkindum leiða til þess að gengið verði á gjaldeyrisforðann og við standa uppi með engan forða, en háar afborganir og vexti. 

Það er ekkert sem styður það að aflétta gjaldeyrishöft með öllu um áramót og hvað þá að setja krónuna á opinn markað.

Horfum til þýska fordæmisins og látum ekki áhættufjárfesta setja samfélagið á hliðina. Það er kominn tími til að ríkisstjórnin hætti að hlusta á hagsmunaðila, sem aðeins líta til persónulegs gróða, og fari að hlutast til þess að leysa hið raunverulega verkefni.

Það er kominn tími til að við sem samfélag tökum aftur til okkar peningaframleiðsluna, framleiðslu sem aldrei átti að gefa frá samfélaginu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Peningar eru infrastrúktúr og allur infrastrúktúr á að vera á könnu samfélagsins, svo einfalt er það. Einkaaðilar hafa það að markmiði að hámarka eigin skammtímahagnað og þeir munu róa að því öllum árum að hámarka eigin skammtímahagnað, að slíkt geti falið í sér áföll til lengri tíma er þeim aukaatriði.

Guðmundur Sverrir Þór, 25.10.2010 kl. 10:26

2 identicon

Ég hef mikinn áhuga á þessum málum.

Er það ekki svona sem Obama fær peningana frá Federal Reserve til að dæla peningum út í efnahaginn?
Hvernig er þessum málum háttað hér á landi?
Hvaðan komu þeir peningar sem voru notaðir til að taka yfir bankana?

Ef við göngum í ESB og tökum upp evruna, hvar verða svona ákvarðanir þá teknar og er það kerfi að einhverju leyti í einkaeigu?

Kæmi til greina að henda krónunni og búa til nýjan gjaldmiðil?

H. Valsson (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 17:19

3 Smámynd: Jón Lárusson

Í fyrsta lagi, þá er ekki nein ástæða til að henda krónunni og búa til nýjan gjaldmiðil. Við þurfum bara að endurskoða hvernig og þá sérstatklega hver býr hana til.

Varðandi peningana sem notaðir voru til að "byggja undir efnahag" bankanna, þá gerir ég ráð fyrir að það hafi verið gert eins og alltaf, þ.e. ríkið útbjó skuldabréf sem bankarnir keyptu, eða aðrir fjársterkir aðilar.

Óbama útbýr skuldabréf sem hann selur Federal Reserve, sem svo notar peninginn til að gefa bönkunum, þ.e. eigendum sínum. Þannig að FR bjó til pening úr engu og lánaði Óbama, sem svo gaf bönkunum þá aftur með því loforði að borga höfuðstólinn til baka ásamt vöxtum.

Ef við göngum inn í ESB og tökum upp euro, þá mun peningaframleiðslunni verða stýrt frá Frankfurt og þar sem "hlutleysi" evrópska seðlabankans er "tryggt", þá er alveg á hreinu að það mun ekki vera neinn fulltrúi samfélagsins sem tekur ákvörðun um peningaframleiðsluna. Svo má líta til nýrra frétta, þar sem kemur fram að þýski efnahagurinn ræður öllu varðandi ákvarðanir seðlabankans, ekki sameiginlegir hagsmunir heildarinnar.

Valda bandaríska þingsins sést svo hér þegar Bernanke "svarar" þinginu.

Jón Lárusson, 26.10.2010 kl. 10:56

4 identicon

Já ég var búinn að sjá þetta myndband, minn áhugi á öllu þessu kviknaði nýlega þegar ég rakst fyrir slysni á Ron Paul sem ég vissi ekki einu sinni að væri til, þótt hann sé með fleiri myndbönd á YouTube and Obama.

Tékkaðu endilega á The Secret Of Oz, mynd sem fjallar einmitt um framleiðslu peninga, þar kemur margt fram og er meðal annars kafli um íslenska hrunið og Icesave, það þyrfti að sýna landsmönnum þessa mynd.

Ég færi hér með hitt spjallið okkar hingað. Hvað þyrfti að breytast á Íslandi til að ríkið gæti verið stjórnarskrárbundið til að skulda ekki peninga og lánastofnanir sem starfa undir íslenskum lögum mættu ekki lána meira en þær eiga?

Það hlýtur að vera mikilvægara að við séum skuldlaus og sjálfstæð en að vera meðlimir í ESB.

Ef þú mættir setja inn nokkur ákvæði í stjórnarskrána, hvað yrði það Jón?

H. Valsson (IP-tala skráð) 26.10.2010 kl. 13:41

5 Smámynd: Jón Lárusson

Blessaður Hörður.

Er búinn að sjá myndina The Secret Of Oz, en höfundur hennar var hér í vor og var hún sýnd tvisvar. Sagan sjálf var skrifuð til að leggja til upptöku á silfri í stað gullfótar og nafn Oz en skammstöfunin fyrir únsu á ensku.

Til að gera eitthvað stjórnarskrárbundið, þá þarf náttúrulega að breyta stjórnarskránni og þá vaknar upp spuringin er vilji til þess. Annað þyrfti svo sem ekki að breytast, fyrir utan náttúrulega viðhorf stjórnmálamanna og undirlægjuháttur þeirra gagnvart fjármálakerfinu.

Auðvitað er mikilvægara fyrir okkur að vera skuldlaus og sjálfstæð en í ESB. Einn stóru vandanna við ESB aðild og upptöku euro er að við yrðum aldrei skuldlaus eða sjálfstæð í kjölfar inngöngu.

Varðandi stjórnarskránna, þá vil ég ekki kast einhverju einu fram núna strax, þarf að hugsa þetta aðeins betur. Málið er að ég er ágætlega sáttur við stjórnarskránna eins og hún er í dag. Ég vildi bara sjá henni fylgt betur eftir.

Til dæmis er aðskilnaður framkvæmdavalds og þings ágætlega skilgreint þar, en þar segir að forseti skipi ríkisstjórn. Í mínum huga á þetta að vera þannig að einstaklingur bíður sig fram til forseta og þegar hann nær kjöri, þá velur hann með sér í ríkisstjórn þá einstaklinga sem hann telur hæfasta til að sinna þeim ráðuneytum sem fyrir eru. Ef slíkur einstaklingur er á þingi, þá ber honum að víkja af þingi og varamaður taka við þann tíma sem hann gegnir ráðherraembættinu. Þannig sæi þingið um löggjöfina og framkvæmdavaldið um stjórnsýsluna. Í slíku umhverfi yrði þing og framkvæmdavald alltaf að vinna saman, en ekki eins og í dag þar sem við kjósum yfir okkur einræði þeirra flokka sem rotta sig saman eftir kosningar. Framkvæmdavaldið stjórnar Alþingi og það er ótækt.

Eina sem mætti bæta inn einhvers staðar er aðskilnaður dómskerfisins, en ég tel að hæstiréttur eigi að skipa héraðsdómara og þegar vantar hæstaréttardómara, þá er hann kosinn af dómurum, án aðkomu þings eða ríkisvalds.

Annars vil ég benda þér á vef umbótahreyfingarinnar, en þar er ýmislegt ítarefni auk þess sem hægt er að skoða myndband af fundi sem ég hélt í júní í sumar.

Jón Lárusson, 27.10.2010 kl. 16:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband